Sýning leikskólahóps

Í síðustu viku bauð leikskólahópur foreldrum sínum og systkinum á sýningu. 
Leikskólahópur er næst elsti árgangurinn á leikskólanum. Þau voru búin að æfa dans, söngatriði og leikrit til að sýna.

Þau léku leikrit um Regbogafiskinn, en það er saga eftir Marcus Pfister og þýdd yfir á íslensku af Valgerði Benediktsdóttur. Regbogafiskurinn var fallegasti fiskurinn í hafinu með glitrandi hreistur. Hinir fiskarnir vildu líka glitrandi hreistur og báðu hann um að gefa sér smá bút. Það vildi hann alls ekki og var dónalegur við hina fiskana. En að lokum gaf hann litlum fiski einn bút og svo hinum fiskunum einum af öðrum þangað til að allir fiskarnir höfðu glitrandi bút á sér. Eftir það voru allir fiskarnir í hafinu vinir. 

Börnin bjuggu til flotta búninga og voru dugleg að segja sínar setningar í hljóðnema (sem var sko heldur betur sport). 
Eftir leikritið sýndu þau dans við lagið Uno sem var Eurovision lagið frá Rússlandi í ár. Það var virkielga gaman að sjá hvað börnin voru dugleg og klár að dansa. Svo sungu þau nokkur lög. 

Eftir það fengu foreldrarnir að skoða öll listaverkin sem börnin höfðu búið til í tengslum við hafið. Einnig höfðu þau bakað möffins daginn áður sem þau tóku svo með sér heim. 


Prenta |