Ábyrgð

Hvað er ábyrgð?

Ábyrgð felst í því að vanda eftir fremsta megni allt sem gert er og sagt og standa við það. Að taka afleiðingum orða sinna og gerða hvort sem það kemur fram í viðurkenningu og lofi eða gagnrýni og ákúrum. Ábyrgð er að standa við gefin loforð en sleppa því ekki eða gleyma. Ábyrgð er að taka ábyrgð á mistökum sínum, kenna ekki veðrinu um, einhverjum öðrum eða eigin gleymsku. Ábyrgð er að koma ekki með afsakanir ef eitthvað fer öðruvísi en ætlað var í fyrstu heldur útskýra hvers vegna. Ábyrgð er merki um þroska. Þeir sem sýna ábyrgð senda þau skilaboð til annarra að þeim megi treysta.

Hvers vegna eigum við að temja okkur ábyrgð?

Þegar við tökum ábyrgð á orðum okkar og gerðum og aðrir finna að þeir geta treyst okkur eru okkur falin fleiri verk að vinna. Ef við erum ábyrg ljúkum við því sem við höfum tekið að okkur, heimavinnan gleymist ekki, loforð eru haldin, verkefnum lokið og fólk verður ekki fyrir vonbrigðum með okkur. Þeir sem bera fyrir sig afsakanir í stað þess að taka ábyrgð gera alltaf sömu mistökin og hætta að vera trausts verðir. Við viljum geta treyst öðrum og við viljum að okkur sé treystandi. Hvort tveggja kemur af sjálfu sér þegar fólk er ábyrgt.

Hvernig temjum við okkur ábyrgð?

Þegar við höfum tekið eitthvað að okkur eitthvert verkefni eða vinnu, hvort sem það er heimavinnan eða að líta eftir litla bróður, tökum við því af fullri alvöru. Við tökum ábyrgð á hlutum sem við ráðum við en höfnum verkefnum sem eru okkur ofvaxin eða höfum ekki tíma fyrir. Við erum ábyrg þegar við gerum hlutina eins vel og við getum. Ef allt mistekst og gengur ekki eins og við ætluðum förum við ekki í vörn heldur horfumst í augu við það og erum tilbúin að leiðrétta það sem miður fer. Við tökum hrósi fyrir það sem vel er gert og aðfinnslum þegar eitthvað fer úrskeiðis. Við hlustum af athygli, tökumst á við ábyrgðina og breytum rétt út frá því.

Prenta |