Klifur

Öllum börnum finnst gaman að príla og klifra. Á útisvæðinu okkar er hægt að klifra upp í kastalann og upp á kofana í sandkastölunum. Það er regla hjá okkur að börnin þurfi að æfa sig til að geta klifrað sjálf upp, kennarar aðstoða ekki nema að standa hjá og leiðbeina. 

Oft bregður fólki við þegar börn klifra og verða hrædd um að börnin detti og meiði sig. Það getur auðvitað gerst en ef við stöndum hjá og erum tilbúin að grípa inn í og aðstoða börnin þá ættu börnin að vera örugg. 

Það er nefnilega margt sem að börnin græða á því að klifra. Að klifra eykur úthald, grófhreyfingar og þolinmæði. Börnin læra á líkama sinn og mörk, þau átta sig flest á því hversu langt þau komast svo þau þori að fara aftur niður. Börnin þurfa að leita lausna og finna út hvernig best sé að komast upp á topp eða þangað sem þau ætla sér. 

Í byrjun þurfa börnin að æfa sig og það getur tekið á. Börnin verða stundum pirruð að geta ekki klifrað og biðja þá um að sér sé lyft upp en með því erum við ekki að gera þeim mikinn greiða. Börnin verða svo ánægð og stolt þegar þau loksins geta klifrað upp. 

Prenta |